Fréttir

Gróðurhús íslenskrar tónlistarsköpunar,skráning að hefjast í Músíktilraunir 2010

Skráning í Músíktilraunir hefst 15.feb. og lýkur 1.mars hér á siðunni. Eingöngu verður um rafræna skráningu að ræða, þ.e. einungis verður hægt að sækja um þátttöku í gegnum þessa heimasíðu. Nú er um að gera og útbúa "demo" / hljóðdæmi, sem þið sendið síðan inn með umsókninni!  Músíktilraunirnar verða svo haldnar á eftirfarandi dögum: undankvöldin í Íslensku Óperunni 15.-18.mars og úrslitakvöldið í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu 27.mars.

Meginmarkmið tilraunanna er sem fyrr að veita ungum íslenskum hljómsveitum og tónlistarfólki tækifæri á að koma tónlist sinni á framfæri og að skapa vettvang fyrir unnendur tónlistar til að geta fylgst með ungum og efnilegum hljómsveitum og tónlistarfólki.

Músíktilraunir hafa verið stór þáttur í tónlistarlífi Íslands. Upphafið má rekja til samstarfs Tónabæjar og SATT (Sambandi alþýðuskálda og tónlistarmanna) sem m.a. stóðu fyrir maraþontónleikum í kjallara Tónabæjar í nóvember 1982.
Oft er talað um að Músíktilraunir hafi verið stökkpallur fyrir ungar og óreyndar hljómsveitir út í hinn „harða tónlistarbransa“.  Hljómsveitir á borð við Kolrössu Krókríðandi,Botnleðju,Maus,Mínus,Jakobínarínu, Agent Fresco o.fl. eru ágætis vitnisburður um að ýmis ævintýri taka við að loknum tilraununum.