Músíktilraunir 2013, tónlistarhátíð í Reykjavík 17.-23. mars 2013Hljóðverssmiðjur Kraums og Músíktilraunir

11.03.2013

Hljóðverssmiðjur Kraums fóru fram í fyrsta sinn árið 2009 í Tankinum á Flateyri og þetta er því  í fimmta sinn í ár sem Kraumur tónlistarsjóður verðlaunar vinningshafa Músíktilrauna með því að veita þeim innsýn inn í þær víðáttur tóna og tækifæra sem hljóðverið hefur að geyma. Undanfarin 4 ár hafa Hljóðverssmiðjurnar verið haldnar í samvinnu við hljóðverið Sundlaugina og verður þar engin breyting á í ár.


Hljóðverssmiðjum Kraums er ætlað að styðja við grasrótina í íslensku tónlistarlífi, miðla reynslu og gefa hljómsveitunum tækifæri á prufa sig áfram og gera tilraunir í stúdíói undir handleiðslu reyndra leiðbeinanda. Þar fá sveitirnar að tækifæri á að prufa sig áfram og reka sig á, taka upp efni og vinna með hugmyndir sem gætu orðið kveikjan að nýju lagi eða efni sem endar á plötu.
 
Þrjár efstu hljómsveitirnar á Músíktilraunum fá pláss í Hljóðverssmiðjum Kraums í verðlaun. Um er að ræða einn dag fyrir hverja hljómsveit í Sundlauginni með hljóðmanni, auk leiðbeinanda. Þar að auki fá sveitirnar einn sameiginlegan kennsludag frá þekktum tónlistarmönnum þar sem þeir miðla af reynslu sinni og farið er vítt og breytt um lendur tónlistarbransans.